Áhættustjórnun


Skýr og skilvirk heimild einstakra aðila til ákvarðanatöku, stýrð áhættutaka og eftirlit bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans, eru hornsteinar áhættustjórnar Landsbankans.

Fara neðar
Útlánaáhætta var áfram vel innan áhættuvilja bankans á liðnu ári. Bókfært virði útlána bankans jókst um 53 milljarða króna árið 2017, mest vegna lána til þjónustufyrirtækja og íbúðalána til einstaklinga. Fasteignafélög eru hins vegar stærsta einstaka atvinnugreinin í lánasafni bankans. Lausafjárstaða bankans er áfram sterk, bæði í heild sem og í erlendum myntum. Þá er markaðsáhætta bankans hófleg og hafa markaðsáhættuþættir bankans verið í jafnvægi allt árið.

Áhættuþættir í rekstri bankans eru metnir með nokkrum mælistikum eftir mismunandi eðli þeirra. Þær mælistikur eru m.a. nýttar við setningu áhættumarka, greiningu áhættuþátta og breytinga á þeim, miðlun upplýsinga og stjórnun áhættu. Sameiginleg mæling allra áhættuþátta er mat á eiginfjárþörf (e. economic capital).

Innra mat bankans á eiginfjárþörf vegna útlánaáhættu (útlán og kröfur á viðskiptavini og fjármálafyrirtæki) hækkaði um 11% á árinu. Mikil útlánaaukning ræður þar mestu en jákvæð þróun gæða safnsins hafði þó temprandi áhrif á hækkun eiginfjárþarfar. Eiginfjárþörf vegna annarra áhættuþátta fór að öðru leyti almennt lækkandi á árinu en útlánaaukning gerir það að verkum að í lok árs 2017 var matið svipað árinu áður. Áhættugrunnurinn (REA) hækkaði einnig, en vegna bættra útlánagæða og tryggingastöðu var hlutfall eiginfjárþarfar og áhættugrunns 10,8% um sl. áramót, samanborið við 11,8% í árslok 2016.

Eiginfjárþörf
Bláa línan sýnir hlutfall eiginfjárþarfar og áhættugrunns (EC/REA)

Heildarmarkaðsáhætta Landsbankans er hófleg og vel innan áhættuvilja bankans. Lausafjárstaða bankans er góð og vel umfram kröfur Seðlabankans en hlutfall heildarlausafjárþekju bankans var 157% í árslok og 931% í erlendum gjaldmiðlum.

Síðustu ár hefur verið unnið að innleiðingu á nýjum innlána- og greiðslukerfum sem rekin eru af Reiknistofu bankanna (RB). Nýju kerfin voru tekin í notkun í lok árs 2017. Um er að ræða stærsta hugbúnaðarverkefni sem Landsbankinn hefur tekið þátt í. Jafn stórri innleiðingu og hér um ræðir fylgja óhjákvæmilega truflanir en af hálfu bankans hefur megináhersla verið lögð á að takmarka áhrif á viðskiptavini eins og unnt er.


Heildarlausafjárþekja (LCR)

Skýr og skilvirk heimild einstakra aðila til ákvarðanatöku, stýrð áhættutaka og eftirlit bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans, eru hornsteinar áhættustjórnar Landsbankans. Bankinn hefur sett sér ítarlegar áhættureglur og byggt upp stjórnskipulag sem tryggir skýra ábyrgð og eftirfylgni við áhættustjórnun.

Yfirlit mælinga á áhættuvilja Landsbankans

Áhættuþáttur Mæling
Útlánaáhætta
Vænt tap
Meðallíkur á vanefndum
Tap að gefnum vanefndum
Geirasamþjöppun
Lántakasamþjöppun
Markaðsáhætta
Hlutabréf 
Skuldabréf
Gjaldeyrir
Vaxta- og verðtryggingaráhætta utan veltubókar
Verðtryggingaráhætta
Lausafjáráhætta Lausafjárþekja - alls
Lausafjárþekja - gjaldeyrir
Rekstraráhætta Umfang rekstrar - Raunbreyting áhættugrunns
Fjármögnunaráhætta Fjármögnunarþekja 
Eiginfjárviðmið

Fjöldi skráðra mála, regluleg skýrsluskil undanskilin

  • Fjármálaeftirlitið 500
  • Seðlabankinn 298

Regluleg skýrsluskil

  • Fjármálaeftirlitið
    20 skýrslur með 63 skýrsluskilum
  • Seðlabankinn
    20 skýrslur með 154 skýrsluskilum, auk þess sem ein skýrsla er send inn daglega

Umgjörð áhættustjórnunar

Mæling áhættuvilja og áhættumarka stærstu áhættuþátta í rekstri eru hluti af daglegri stjórnun bankans. Slík stjórntæki eru nýtt til að auka gæði eignasafnsins, bæta samsetningu þess og draga úr áhættu. Áhættuvilji tekur ekki einungis til áhættumarka heldur felur jafnframt í sér leiðbeiningar um viðhorf til áhættu í rekstri sem starfsmenn bankans þurfa að tileinka sér.

Áhættumörk bankans eru ávallt í samræmi við lög og reglur en bankinn skilgreinir einnig sjálfur fjölmörg áhættumörk að auki, sem ekki eru bundin í lög eða reglur. Landsbankinn hefur sett sér markmið um fjárhagsstöðu, gæði eigna, stöðutöku og ásættanlega arðsemi til lengri tíma. Til að ná markmiðum sínum tekur bankinn aðeins þá áhættu sem hann skilur, getur metið og mætt.

Við ákvörðun áhættuvilja eru samhliða sett áhættumörk fyrir helstu þætti tengda útlána-, markaðs-, lausafjár-, fjármögnunar- og rekstraráhættu, en þau eru misítarleg eftir eiginleikum og breytileika þeirra. Áfram er stefnt að því að halda áhættu stöðugri á efnahagsreikningi bankans.

Virkt innra eftirlit

Virkt innra eftirlit er einn af hornsteinum öflugrar áhættustjórnunar og á að stuðla að því að bankinn starfi í samræmi við áhættustefnu og áhættuvilja. Samtals starfar 61 starfsmaður við innra eftirlit Landsbankans, þ.e. innan sviðsins Áhættustýringar, í Regluvörslu, sem er sérstök deild sem heyrir undir bankastjóra, og við Innri endurskoðun.

Innra eftirlit er ferli sem er mótað af stjórnendum og starfsmönnum Landsbankans. Innra eftirlit felur í sér allar þær aðgerðir sem gripið er til með það að markmiði að styðja við, stjórna, takmarka eða vakta tiltekna starfsemi og auka þannig líkur á að bankinn nái settum markmiðum.

Landsbankinn leggur áherslu á góð samskipti við eftirlitsaðila og að upplýsingagjöf til þeirra sé ávallt rétt. Samtals voru 798 mál skráð í skjalastjórnunarkerfi Landsbankans árið 2017 vegna samskipta við Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, fyrir utan regluleg skýrsluskil.

Ítarlegri upplýsingar í áhættuskýrslu

Landsbankinn hefur undanfarin ár gefið út áhættuskýrslu sem uppfyllir upplýsingaskyldu samkvæmt þriðju stoð Basel II. Í skýrslunni er gerð ítarleg grein fyrir öllum þáttum áhættustýringar bankans og þeim aðferðum sem beitt er við mat á áhættu.

Áhættuskýrslunni er ætlað að að gefa glögga mynd af stöðu bankans og veitir hún m.a. lykilupplýsingar varðandi umfang, áhættuskuldbindingar, áhættumatsferli, eiginfjárstöðu og aðra mikilvæga þætti á þessu sviði.

Landsbankinn gaf út áhættuskýrslu þann 26. febrúar 2018. Skýrslan er á ensku.