Fjármögnun Landsbankans grundvallast á þremur meginstoðum: innlánum frá viðskiptavinum, fjármögnun á markaði og eigin fé. Lánshæfiseinkunn Landsbankans er metin BBB+/A-2 með stöðugum horfum af S&P Global Ratings.
Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum, lánastofnunum og Seðlabanka sem námu 637 milljörðum króna í árslok 2017 og eru að mestu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 27 milljarða króna á árinu. Verðtryggð innlán námu 106 milljörðum í lok árs 2017 og lækkuðu um þrjá milljarða króna frá fyrra ári.
EMTN-skuldabréfarammi bankans er tveir milljarðar evra að stærð og var stækkaður úr 1,5 milljarði evra á árinu 2017. Fyrstu skref í útgáfum undir rammanum voru tekin haustið 2015 og var útgáfum haldið áfram á árunum 2016 og 2017. Landsbankinn gaf út skuldabréf til fimm ára að fjárhæð 300 milljónir evra og skuldabréf til þriggja ára að fjárhæð einn milljarður sænskra króna á fyrri hluta ársins 2017 og nýtti andvirðið til að greiða að fullu upp eftirstöðvar skuldabréfa sem voru gefin út til Landsbanka Íslands hf., nú LBI ehf. Skuldabréfin til LBI voru upphaflega gefin út vegna eigna og skulda sem færðar voru frá LBI til Landsbankans í október 2008 og nam upphafleg fjárhæð þeirra 350 milljörðum króna á þáverandi gengi. Árið 2014 var samið var um að lokagreiðsla skuldabréfanna yrði innt af hendi í október 2026 með heimild til uppgreiðslu án kostnaðar hvenær sem er á tímabilinu. Með því að greiða upp skuldabréfin við LBI lækkaði Landsbankinn fjármagnskostnað sinn og losaði um veðsetningu eigna sem stóðu til tryggingar skuldabréfunum.
Flokkur | Samtals |
Langtíma | BBB+ |
Skammtíma | A-2 |
Horfur | Stöðugar |
Útgáfudagur | Október 2017 |
Erlendar skuldabréfaútgáfur eru veigamesta stoðin í fjármögnun bankans á markaði. Í nóvember 2017 gaf bankinn út 5,5 ára skuldabréfaflokk að fjárhæð 300 milljónir evra og nýtti afraksturinn til greiðslu eldri skulda, þar á meðal til endurkaupa á hluta af skuldabréfaútgáfu bankans í evrum sem er á gjalddaga í október 2018. Í árslok námu erlendar skuldabréfaútgáfur samtals 191 milljörðum króna og jukust um 73 milljarða króna á árinu.
Frá fyrstu útgáfu árið 2015 hafa kjör á eftirmarkaði lækkað umtalsvert. Á árinu 2017 héldu kjör markflokka bankans í evrum áfram að batna og lækkuðu um yfir 70 punkta fyrir skuldabréf á gjalddaga árið 2021. Endurfjármögnun eldri skulda á hagstæðari kjörum hafði því umtalsverð jákvæð áhrif á veginn fjármögnunarkostnað bankans.
Eigið fé bankans nam 246 milljörðum króna í árslok 2017 og lækkaði um 5 milljarða króna á árinu. Landsbankinn greiddi út arð að fjárhæð 25 milljarða króna til hluthafa á árinu 2017. Bankinn nýtti auk þess heimild til kaupa á eigin hlutum og bauð hluthöfum að kaupa til baka sem nemur allt að 2% útgefins hlutafjár, að frátöldum endurkaupum ársins 2016. Á árinu 2017 voru endurkaupin óveruleg. Eiginfjárhlutfall Landsbankans var 26,7% í árslok 2017.