Einstaklingar


Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði árið 2017 var 37,9% og hefur aldrei mælst hærri. Mælingar sýna aukna ánægju með þjónustu bankans.

Fara neðar
Einstaklingum sem kjósa að eiga viðskipti við Landsbankann hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og hefur bankinn nú verið með hæstu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði fjögur ár í röð. Frá árinu 2008 hefur markaðshlutdeildin vaxið um tæplega 10 prósentustig.
Markaðshlutdeild - Einstaklingsmarkaður
Heimild: Gallup

Áfram mikil umsvif á íbúðalánamarkaði

Umsvif Landsbankans á íbúðalánamarkaði voru mikil á árinu 2017 eins og fyrri ár, þrátt fyrir mikla samkeppni. Alls lánaði Landsbankinn um 98 milljarða króna sem ný íbúðalán á árinu 2017. Um 74% nýrra íbúðalána voru verðtryggð lán og 26% óverðtryggð. Hlutfall óverðtryggðra lána jókst um 9 prósentustig á milli ára en þau voru 17% nýrra íbúðalána árið 2016.

Tvennt skýrir helst mikil umsvif bankans á fasteignalánamarkaði á árinu 2017. Annars vegar aukin fasteignaviðskipti og hækkun fasteignaverðs ásamt því að algengara er orðið að fólk endurfjármagni húsnæðislán sín. Hins vegar – og enn frekar – er skýringanna að leita í því að Landsbankinn leggur áherslu á að veita viðskiptavinum vandaða ráðgjöf og skjót og fagleg vinnubrögð við lánveitingar, þ.m.t. við greiðslumat. Markaðshlutdeild Landsbankans í nýjum íbúðalánum var 27% á árinu 2017 en var 28% árið 2016.

Markaðshlutdeild í nýjum íbúðalánum 2017

27%
Ný íbúðalán (ma. kr.)
 

Landsbankinn lánar fyrir allt að 85% af kaupverði íbúðarhúsnæðis. Lánað er fyrir allt að 70% af kaupverði til allt að 40 ára og einnig er boðið upp á 15% viðbótarlán. Viðbótarlánið nýtist einkum þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign, ekki síst ungu fólki.

Alls skráði bankinn hátt í 7.000 ný íbúðalán í bækur sínar á árinu 2017 og er þá bæði átt við ný lán og lán vegna endurfjármögnunar.

Íbúðalánavernd – ný tegund líftryggingar

Á árinu 2017 hóf Landsbankinn, í samvinnu við tryggingafélagið Sjóvá, að bjóða viðskiptavinum sem eru með íbúðalán hjá bankanum upp á íbúðalánavernd. Um er að ræða líftryggingu sem er ætlað að veita aðstandendum aukið fjárhagslegt öryggi við fráfall lántaka. Við fráfall lántaka eru greiddar bætur sem renna beint til lækkunar á íbúðaláninu. Þannig léttir tryggingin greiðslubyrði lánsins í samræmi við fjárhæð tryggingarinnar. Upphæð tryggingarinnar getur numið allt að 20 milljónum króna.

Innleiðing laga um fasteignalán

Á árinu 2017 tóku gildi ný lög um fasteignalán til neytenda. Markmið laganna er að tryggja neytendavernd við kynningu, ráðgjöf, veitingu og miðlun fasteignalána til neytenda. Jafnframt er markmið laganna að stuðla að ábyrgum lánveitingum og sporna við óhóflegri skuldsetningu neytenda.

Almennt séð hafa nýju lögin jákvæð áhrif á neytendur. Lögin kveða á um að lántökugjöld allra fasteignalána séu föst krónutala og þrengri skorður eru settar við uppgreiðslugjöldum lána með föstum vöxtum. Hvort tveggja ætti í flestum tilfellum að skila sér í lægri kostnaði fyrir neytendur og gera þeim kleift að endurfjármagna lán sín með lægri kostnaði en áður.

Hús
Bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans aðstoðar einstaklinga og fyrirtæki við að fjármagna kaup á nýjum og notuðum bifreiðum, mótorhjólum, ferðavögnum, vélum og tækjum.

Hlutdeild í bílalánum til einstaklinga vegna kaupa á nýjum bílum 2017

29%
Heimild: Könnun Gallup frá desember 2017

Mikil umsvif í bíla- og tækjafjármögnun

Umsvif Landsbankans á bílalánamarkaði voru áfram mikil á árinu 2017. Alls lánaði bankinn um 8,5 milljarða króna til einstaklinga á árinu, sem er 15,3% aukning frá fyrra ári. Ný lán til fyrirtækja á bíla- og tækjalánamarkaði námu um 24,4 milljörðum króna á árinu 2017 sem er sambærilegt og 2016 en umsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu eru þar mest áberandi.

Heildarútlánasafn Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans var um 48 ma.kr. í árslok 2017 samanborið við 42 ma.kr. í lok árs 2016. Aukning á milli ára nemur um 14,7%. Um þriðjungur voru lán til einstaklinga en tveir þriðju hlutar voru lán til fyrirtækja.

Heildarútlán hafa vaxið í takt við aukna sölu bifreiða á árinu 2017. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu voru 21.287 fólksbílar nýskráðir á árinu 2017 sem er um 15% aukning frá 2016. Jafnframt jókst nýskráning notaðra fólksbifreiða umtalsvert en alls voru rúmlega 4.400 notaðar bifreiðar nýskráðar á Íslandi árið 2017.

Hlutdeild fjármögnunarfyrtækja 2017

Aukakrónur 10 ára og aldrei verið öflugri

Fríðindakerfi Landsbankans, Aukakrónur, er í mikilli sókn. Yfir 60 þúsund viðskiptavinir eru nú með kort tengt Aukakrónusöfnun og fjölgaði þeim um rúmlega 10 þúsund frá árinu 2016. Á árinu 2017 söfnuðu viðskiptavinir Landsbankans samtals yfir 326 milljónum Aukakróna. Korthafar sem tengja kreditkort við Aukakrónusöfnun fá greiddar Aukakrónur, annars vegar sem hlutfall af innlendri veltu og hins vegar í formi endurgreiðsluafsláttar frá samstarfsaðilum.

Kannanir sýna að þeir sem nýta sér Aukakrónusöfnun eru ánægðari með þjónustu bankans en aðrir og tryggari viðskiptavinir.

Mikill fjöldi fyrirtækja kom inn í Aukakrónusamstarfið á árinu en samtals bættust 77 fjölbreyttar verslanir og þjónustufyrirtæki í hóp samstarfsaðila. Nú er hægt að safna og nota Aukakrónur hjá yfir 260 samstarfsaðilum um allt land. Notkun Aukakróna hefur aldrei verið meiri en samtals keyptu viðskiptavinir vörur og þjónustu hjá samstarfsaðilum fyrir tæplega 268 milljónir Aukakróna árið 2017.


Þeir sem nýta sér Aukakrónusöfnun eru ánægðari með þjónustu bankans en aðrir og tryggari viðskiptavinir
Aukakrónusöfnun

Snertilausar greiðslur með greiðslukortum

Ánægðir viðskiptavinir

98%

Heimild: Könnun Gallup í nóvember 2017

Nýtt snertilaust kreditkort

Á seinni helmingi ársins 2017 hóf Landsbankinn að gefa út ný VISA-kreditkort með snertilausri virkni. Með snertilausum kreditkortum er hægt að að greiða fjárhæðir undir 5.000 krónum með því að bera kortið að posa í stað þess að stinga því í posann og slá inn PIN-númer. Af og til er korthafi þó beðinn um stinga kortinu í posa og slá inn PIN þegar hann reynir greiðslu með snertilausum hætti og er það gert til að auka öryggi viðskiptavina.

Viðskiptavinir ánægðir með 360° ráðgjöf

Árið 2015 hóf Landsbankinn að bjóða viðskiptavinum upp á 360° ráðgjöf. Um er að ræða heildstæða fjármálaráðgjöf sem tekur á öllum helstu þáttum fjármála einstaklinga; sparnaði, lánum, tryggingum og fleiru.

Viðskiptavinir hafa frá upphafi tekið ráðgjöfinni mjög. Á árinu 2017 fengu 7.402 viðskiptavinir 360° ráðgjöf en frá árinu 2015 hafa alls um 20.500 viðskiptavinir þegið ráðgjöfina.

Í kjölfar viðtals við ráðgjafa sendir Landsbankinn viðskiptavinum netkönnun þar sem m.a. er spurt um ánægju með ráðgjöfina. Niðurstöður sýna að ánægja viðskiptavina hefur farið stöðugt vaxandi og var 4,5 af 5 mögulegum árið 2017. Mælingar sýna einnig að viðskiptavinir sem hafa fengið 360° ráðgjöf eru ánægðari en aðrir viðskiptavinir Landsbankans.

Ánægja með þjónustu útibúa

Viðskiptavinir Landsbankans eru mjög ánægðir með þjónustu útibúa. Í Gallup-könnun í nóvember 2017 sögðust 98% viðskiptavina vera ánægðir með þjónustuna. Þar af sögðust 91% vera mjög eða fullkomlega ánægðir og 7% frekar ánægðir.