Fyrirtæki


Landsbankinn hefur alla tíð stutt við fjölbreytta starfsemi fyrirtækja um allt land. Þessi áhersla hefur skilað sér í mjög sterkri stöðu á fyrirtækjamarkaði.

Fara neðar
Byggingar og byggingarkranar
Efnahagsástandið hér á landi var á flesta mælikvarða mjög gott árið 2017. Hagvaxtarskeiðið var á sínu sjöunda ári og var hagvöxtur ársins öflugur. Efnahagsreikningar fyrirtækja voru að jafnaði sterkir og það skapaði svigrúm til athafna. Landsbankinn lagði sitt lóð á vogarskálarnar og vann markvisst eftir þeirri stefnu að bankinn sé traustur samherji viðskiptavina sinna sem veitir þeim framúrskarandi þjónustu.

Traust og öflug fyrirtækjaþjónusta

Hlutdeild bankans á fyrirtækjamarkaði hefur vaxið undanfarin ár og var 34,8% í árslok 2017, en var 33,4% í árslok 2016, samkvæmt markaðsrannsókn Gallup.

Útlánavöxtur til fyrirtækja var hóflegur hjá Landsbankanum á árinu. Hlutdeild Landsbankans í útlánum til fyrirtækja er sem fyrr mest meðal stóru bankanna þriggja, eða 40%. Lánasafn Landsbankans til fyrirtækja í mannvirkjageiranum hefur vaxið hvað mest en einnig hefur verið vöxtur í útlánum til verslunar og þjónustu. Staða sjávarútvegsfyrirtækja er almennt mjög góð og hafa skuldir greinarinnar farið lækkandi.

Kraftmikill samherji atvinnulífsins

Stefna Landsbankans er að veita fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum um allt land fyrirmyndarþjónustu. Sífellt stærri hluti af þjónustunni er veittur með rafrænum hætti og á árinu 2017 voru ýmsar nýjungar kynntar til leiks í netbanka fyrirtækja.

Markaðshlutdeild í útlánum til fyrirtækja*

40%
* Samkvæmt ársuppgjöri bankanna fyrir árið 2017. 
Markaðshlutdeild á fyrirtækjamarkaði
Heimild: Gallup

Ánægðir viðskiptavinir

91,3%
Heimild: Þjónustukönnun Gallup

Minni og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu geta sótt alla þjónustu í Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans í Borgartúni 33. Viðskiptavinir hafa verið mjög ánægðir með þjónustu og ráðgjöf sem þar býðst en þjónustukönnun Gallup sýndi að 91,3% viðskiptavina Fyrirtækjamiðstöðvarinnar voru mjög eða frekar ánægðir með þjónustuna.

Landsbankinn leggur sömuleiðis mikla áherslu á þjónustu við fyrirtæki á landsbyggðinni og kannanir Gallup sýna að Landsbankinn hefur þar mesta markaðshlutdeild af stóru bönkunum þremur.

Aukin þjónusta við minni og meðalstór fyrirtæki

Landsbankinn leitar stöðugt leiða til að veita viðskiptavinum betri þjónustu, sýna frumkvæði og veita fyrirtækjum í viðskiptum viðeigandi sérfræðiráðgjöf og þjónustu. Bankinn hefur frá árinu 2015 boðið einstaklingum upp á heildstæða fjármálaráðgjöf undir merkjum 360° ráðgjafar. Haustið 2017 hóf bankinn að bjóða völdum minni og meðalstórum fyrirtækjum í 360° samtal. Eigendum fyrirtækja er boðið í samtal þar sem farið er með heildstæðum hætti yfir alla fjármálaþætti í rekstri félagsins, svo sem fjármögnun, ávöxtun, rafrænar lausnir og undirbúning fyrir framtíðina. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og ljóst að þessi samtöl efla þjónustu við fyrirtæki og eykur ánægju þeirra með viðskiptasambandið við bankann.

17 Sortir

Sterk staða í mannvirkjafjármögnun

Landsbankinn hefur um árabil verið leiðandi í mannvirkjafjármögnun. Bankinn hefur á liðnum árum verið umfangsmestur í fjármögnun nýrra íbúða og nýrra hótelbygginga. Mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði og bankinn lítur því á það sem hluta af samfélagsábyrgð sinni að styðja við bakið á verktökum sem standa fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis.

Stærri verkefni á þessu sviði, sem bankinn fjármagnar, voru 93 talsins um síðustu áramót á vegum 60 verktakafyrirtækja. Verkefnin skiptust þannig að hótelverkefni voru fjögur talsins og atvinnuhúsaverkefni jafn mörg. Verkefni sem sneru að byggingu nýs íbúðarhúsnæðis voru langsamlega fyrirferðarmest en alls voru 85 slík verkefni, sem fjármögnuð eru af Landsbankanum, í gangi um sl. áramót.

Umrædd verkefni snúa að byggingu á 2.880 íbúðum og munu þær allar koma inn á fasteignamarkað á árunum 2018 og 2019. Stærsti hluti íbúðanna er á höfuðborgarsvæðinu en jafnframt voru stærri verkefni á þessu sviði á Selfossi, Akranesi og í Reykjanesbæ.

Öflugur samherji ferðaþjónustunnar

Landsbankinn hefur lagt mikla áherslu á fjármögnun ferðaþjónustufyrirtækja á liðnum árum, m.a. með fjármögnun nýrra hótela. Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að ferðaþjónusta er nú stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein í landinu. Þrjú þeirra hótela bankinn fjármagnar nú eru á höfuðborgarsvæðinu og eitt utan þess. Samfelld fjölgun erlendra ferðamanna hefur leitt til þess að skortur er á gistirými, sér í lagi yfir sumarmánuðina. Því hefur bankinn verið áhugasamur um að sinna góðum uppbyggingarverkefnum á því sviði og hefur þar leiðandi stöðu. Sama á við um aðrar greinar ferðaþjónustu, s.s. hópferðafyrirtæki, bílaleigur auk þess sem mikill vöxtur hefur verið í lánum bankans til afþreyingarfyrirtækja. Þá hefur ITF I, sem er sérhæfður ferðaþjónustusjóður í umsjá Landsbréfa, lagt hlutafé í mörg spennandi fyrirtæki á þessu sviði.

Landsbankinn hefur fullan hug á að halda leiðandi stöðu sinni í mannvirkjafjármögnun, bæði í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis og í áframhaldandi uppbyggingu í tengslum við ferðaþjónustu. Bankinn sér fram á að takast á við ný og spennandi verkefni á þessum sviðum á næstu misserum.

Stór byggingaverkefni sem bankinn kom að

93verkefni

Íbúðir fjármagnaðar af Landsbankanum*

2.880íbúðir
* sem koma á markað 2018 og 2019
Blátt skip

Öflugur bakhjarl fyrirtækja til sjávar og sveita

Sjávarútvegur og landbúnaður voru lengi vel burðarstoðir íslensks atvinnulífs. Á síðustu árum hefur mikil nýsköpun, þróun og framfarir endurspeglast í mikilli uppbyggingu og endurnýjun innan greinanna. Landsbankinn hefur tekið virkan þátt í þessu ferli og stutt stór verkefni í sveitum og fjörðum landsins. Staða flestra sjávarútvegsfyrirtækja er góð, skuldastaða þeirra hefur lækkað á sama tíma og talsverð endurnýjun og uppbygging hefur verið að eiga sér stað.

Aukin áhersla á fyrirtæki í verslun og þjónustu

Umsvif Landsbankans í viðskiptum við fyrirtæki í verslun og þjónustu jukust talsvert á árinu 2017. Fjölmörg ný fyrirtæki í þessum geira, stór sem smá, bættust í hóp viðskiptavina bankans. Það ber orðspor bankans hérlendis sem erlendis gott vitni að stór alþjóðleg fyrirtæki sem hófu starfsemi á landinu á sviði verslunar og þjónustu hafa valið Landsbankann sem sinn aðalviðskiptabanka hérlendis. Útlán bankans til fyrirtækja í verslun og þjónustu jukust á árinu sem rennir styrkari stoðum undir vel dreift lánasafn bankans til fyrirtækja.