Markaðir


Líkt og undanfarin ár jókst umfang eignastýringar Landsbankans. Í árslok 2017 voru heildareignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans 417 milljarðar króna.

Fara neðar
Kauphöll

Leiðandi í kauphallarviðskiptum

Landsbankinn var með mestu hlutdeild á skuldabréfamarkaði í Kauphöll á árinu 2017, eða 17,9%. Þá var bankinn með næstmestu hlutdeild á hlutabréfamarkaði, eða 20,3%. Samkeppnin er hörð þar sem kauphallaraðilar eru samtals níu og því ljóst að bankinn er leiðandi á þessu sviði.

Hjá Mörkuðum Landsbankans er sífellt unnið að því að auka þjónustuframboð. Á árinu voru stofnaðir þrír nýir sjóðir; Eignadreifing Virði, Eignadreifing Vöxtur og Eignadreifing Langtíma. Sjóðirnir eru fjárfestingarsjóðir með virka eignastýringu. Þeir henta viðskiptavinum sem vilja fjárfesta í vel dreifðu og blönduðu eignasafni sjóða sem samanstanda af innlánum, skuldabréfum og hlutabréfum.

Gjaldeyrismarkaður

Miklar breytingar urðu á gjaldeyrismarkaði með afnámi hafta. Aðgangur fyrirtækja að áhættuvörnum jókst og jafnframt hætti Seðlabankinn reglulegum viðskiptum á markaði. Velta á millibankamarkaði dróst saman á milli ára enda var Seðlabankinn fyrirferðamikill á markaði. Gjaldeyrisviðskipti einstaklinga og fyrirtækja hafa aukist mikið með nýfengnu frelsi og jafnframt eru áskoranir framundan með auknu flökti. Landsbankinn er leiðandi á gjaldeyrismarkaði og ráðgjöf vegna áhættuvarna.

Aðgangur að öllum helstu mörkuðum heims

Eftir afnám gjaldeyrishafta hefur eftirspurn eftir fjárfestingu erlendis aukist töluvert. Landsbankinn býður upp á breitt vöruframboð í erlendum fjárfestingum og er þannig með aðgang að öllum helstu mörkuðum heims. Bankinn er með samstarf við þekkt erlend sjóðafyrirtæki á borð við AllianceBernstein, BlackRock, Carnegie Funds, T. Rowe Price Funds, UBS og Axa Investment og síðan rekur Landsbréf hf., dótturfélag bankans, sjóði sem fjárfesta erlendis.

Landsbankinn býður upp á breitt vöruframboð í erlendum fjárfestingum og er þannig með aðgang að öllum helstu mörkuðum heims.

Lífeyrissparnaður í stýringu

129milljarðar króna

Eignir í stýringu

417milljarðar króna

Hlutdeild í Kauphöll

18,8%af heildarveltu

Landsbankinn býður upp á breitt vöruúrval í lífeyrissparnaði og er, með um 23% markaðshlutdeild í viðbótarlífeyrissparnaði, leiðandi á markaði.

Um 23% markaðshlutdeild í lífeyrissparnaði

Landsbankinn býður upp á breitt vöruúrval í lífeyrissparnaði og er, með um 23% markaðshlutdeild í viðbótarlífeyrissparnaði, leiðandi á markaði. Landsbankinn sér um rekstur Íslenska lífeyrissjóðsins og hefur hlutdeild sjóðsins í viðbótarlífeyrissparnaði vaxið hratt þrátt fyrir harða samkeppni.

Ásamt því að bjóða upp á fjórar ávöxtunarleiðir með Íslenska lífeyrissjóðnum býður Landsbankinn einnig upp á Lífeyrisbók, sem eru verðtryggðir og óverðtryggðir innlánsreikningar, Fjárvörslureikning, sem er safn erlendra verðbréfa, ásamt því að Landsbankinn sér einnig um rekstur Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands. Viðskiptavinum sem greiða í lífeyrissjóði sem eru í rekstri hjá Landsbankanum eða greiða í Lífeyrisbók fjölgaði um rúmlega 53% á milli áranna 2013 og 2017 eða úr um 19.300 í um 29.600.

Ávöxtun Íslenska lífeyrissjóðsins hefur verið góð á síðustu árum. Meðalnafnávöxtun á ári í Líf 1 hjá Íslenska lífeyrissjóðnum var um 7,8% sl. fimm ár og 8,5% sl. fimmtán ár.

Starfsmenn bankans sjá alfarið um ráðgjöf og sölu á sviði lífeyrismála þar sem mikil áhersla er lögð á góða þjónustu og vandaða ráðgjöf.

Vestmannaeyjar sólsetur

Áhersla á ábyrgar fjárfestingar

Árið 2017 stóð Landsbankinn fyrir stofnun samtaka um ábyrgar fjárfestingar. Samtökin fengu nafnið IcelandSIF. Tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Ásamt Landsbankanum tóku 22 fyrirtæki þátt í stofnun samtakanna. Stofnaðilar samtakanna eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila með starfsemi á Íslandi.