Þróun í bankastarfsemi


Á árinu 2017 tók Landsbankinn í notkun nýtt innlána- og greiðslukerfi, innleiddi ýmsar nýjungar í net- og farsímabönkum einstaklinga og fyrirtækja og haldið var áfram að bæta aðgengi að sjálfsafgreiðslulausnum í útibúum bankans.

Fara neðar

Landsbankinn tekur nýtt innlána- og greiðslukerfi í notkun

Nýja innlána- og greiðslukerfið sem Landsbankinn tók í notkun í nóvember 2017 leysti af hólmi mörg eldri tölvukerfi bankans og Reiknistofu bankanna (RB). Í stað eldri kerfa, sem sum voru allt að 40 ára gömul, var nýtt kerfi frá hugbúnaðarfyrirtækinu Sopra Banking Software tekið í notkun.

Verkefnið var afar umfangsmikið og telst til stærri hugbúnaðarverkefna sem ráðist hefur verið í hér á landi. Íslenskt fjármálakerfi býr við rauntímagreiðslumiðlun sem hefur m.a. þá kosti að færslur í kerfinu skila sér hratt og hægt er að framkvæma millifærslur án tafar. Víðast hvar annarsstaðar í heiminum tekur 1-5 daga fyrir greiðslur að berast á milli reikninga. Í slíku umhverfi er mun auðveldara að skipta út greiðslukerfum en hér á landi. Innleiðing Sopra-kerfisins var sú fyrsta sem gerð er í rauntíma. Þótt innleiðingin hafi gengið mjög vel urðu nokkrar truflanir á þjónustu en viðskiptavinir bankans tóku röskunum af mikilli þolinmæði og skilningi. Hið sama má segja um samstarfsaðila bankans og starfsfólk annarra banka en uppfærslan hafði áhrif á allt greiðslukerfi landsins.

Nýja kerfið frá Sopra einfaldar og uppfærir tækniumhverfi bankans og er ódýrara í rekstri og sveigjanlegra en eldri kerfi. Auðveldara og einfaldara verður að bjóða upp á nýjungar. Þróun nýrra afurða mun taka mun skemmri tíma en hægt er að þróa nýjar fjármálaafurðir í nýju kerfunum án þess að það kalli alltaf á sérstaka forritunarvinnu tæknimanna. Á fyrirtækjamarkaði munu nýju grunnkerfin opna möguleika á að sérsníða þjónustu mun betur að þörfum viðskiptavina. Með Sopra-kerfinu aukast einnig möguleikar á samnýtingu hugbúnaðarlausna í fjármálakerfinu.

Þótt nýja kerfið hafi verið tekið í notkun er vinnu við innleiðingu þess ekki lokið. Á næstu misserum og árum verður unnið að því að hagnýta þá möguleika sem kerfið bíður upp á, viðskiptavinum og bankanum til hagsbóta.

Nýja kerfið frá Sopra einfaldar og uppfærir tækniumhverfi bankans og er ódýrara í rekstri og sveigjanlegra en eldri kerfi.
Netbanki einstaklinga í fartölvu

Greiðsludreifing kreditkorta

Nánar um netbanka einstaklinga

Nýjungar í netbanka einstaklinga og fyrirtækja

Meðal nýjunga sem voru kynntar í netbanka einstaklinga á árinu 2017 er að viðskiptavinir geta nú sjálfir skipt greiðslukortareikningum sínum með einföldum hætti. Sjálfsafgreiðslan byggir á niðurstöðum sjálfvirks lánshæfismats sem gefur til kynna hvort viðskiptavinur hafi heimild til að framkvæma greiðsludreifingu í netbanka. Þessi möguleiki hlaut strax góðar viðtökur sem staðfestir enn á ný að viðskiptavinir kalla í auknum mæli eftir sjálfsafgreiðslumöguleikum.

Önnur nýjung af svipuðum toga var kynnt árið 2016, þ.e. að viðskiptavinir Landsbankans, sem eru lánshæfir, geta sótt um og breytt yfirdráttarheimild í netbanka einstaklinga. Þessi þjónusta var mikið notuð á árinu 2017 og í árslok var um helmingur yfirdráttarheimilda stofnaðar í net- eða farsímabönkum Landsbankans.

Á árinu 2017 kynnti bankinn rafræna lausn við undirritun umboðs til öflunar fjárhagsupplýsinga. Með henni geta viðskiptavinir undirritað umboðið með rafrænum skilríkjum og þannig dregið úr fyrirhöfn við framkvæmd greiðslumats. Fljótlega munu viðskiptavinir sjálfir geta lokið við greiðslumat á vefnum, alfarið í sjálfsafgreiðslu.

Á árinu 2018 mun Landsbankinn kynna enn frekari nýjungar á sviði stafrænnar þjónustu og fleiri þjónustuþættir verða gerðir aðgengilegir með sjálfsafgreiðslulausnum.

Mikil aukning í innskráningu í farsímabanka

Notkun á netbanka einstaklinga og farsímabankanum, L.is, hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og árið 2017 var þar engin undantekning. Á árinu fjölgaði viðskiptavinum sem notuðu netbanka einstaklinga daglega um 7,7%. Heimsóknum í farsímabankann, L.is, fjölgaði þó enn meira, eða um 23%. Á síðustu árum hafa sífellt fleiri notað farsímabankann til að sinna bankaviðskiptum og vænta má enn frekari aukningar á komandi misserum með útgáfu á appi fyrir farsímabankann.

Aukinn hraði og sveigjanlegri aðgangsstýring í netbanka fyrirtækja

Árið 2017 varð mjög mikil aukning í notkun á netbanka fyrirtækja. Notendur hafa aldrei verið fleiri og og meðalnotkun var meiri en áður. Margar nýjungar litu dagsins ljós, allt frá þýðingarmikilli hraðaaukningu (fyrir launagreiðendur og kröfugreiðendur) yfir í sveigjanlegri aðgangsstýringar og þægilegra innskráningarferli.

Farsímabanki Landsbankans var valinn besta vefappið árið 2016 af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna en verðlaunin voru afhent 27. janúar 2017.
Heimsóknir í netbanka einstaklinga
Heimsóknir í farsímabanka

Kaup og sala verðbréfa á netinu

Á vordögum var gefin út ný útgáfa netbanka fyrirtækja sem jók mjög möguleika á aðgerðum sem tengjast verðbréfaviðskiptum. Viðskipti með hlutabréf og sjóði hafa aldrei verið einfaldari. Kauptilboð eru send í aðeins þremur skrefum og hið sama gildir um söluferlið. Í netbankanum er nú hægt að eiga viðskipti með stök hlutabréf og sjóði, hvar og hvenær sem er, fylgjast með framgangi viðskiptanna, fá yfirlit yfir verðbréfaeign, viðskiptasögu og yfirsýn yfir þróun markaða. Það hefur ýmsa kosti að geta skoðað verðbréfaeign og viðskiptasögu félaga í netbankanum, ekki síst að það er ódýrara fyrir viðskiptavini.

Breytt og bætt lánayfirlit

Framsetning lánayfirlita var sömuleiðis stórbætt. Lánasamningum (lánalínum) er nú í fyrsta sinn gerð sérstök skil. Nú sjást allar mikilvægar upplýsingar um ádrætti, hve mikið er til ráðstöfunar innan samningsrammans, upplýsingar um leggi lánasamninga og margt fleira. Skoða má lánasafnið bæði í upprunalegri mynt og einnig umreiknað í íslenskar krónur þegar við á. Breytingarnar eru fyrsti áfanginn í stærra verkefni sem snýst um að veita aðgengilegra og yfirgripsmeira lánayfirlit.

Öryggi í netbanka fyrirtækja var aukið með því að innleiða RSA-öryggiskerfið en það er einnig í notkun í netbanka einstaklinga. Öryggiskerfið lærir að þekkja hegðun og aðstæður hvers viðskiptavinar og fylgist með frávikum frá venjubundinni notkun. Að öllu jöfnu finna viðskiptavinir ekki fyrir kerfinu en það bregst við ef frávik verða.

Aðili að norrænu samstarf um netöryggi

Glæpa- og svikastarfsemi á netinu hefur færst í aukana og netglæpir verða sífellt þróaðri. Í dagsins önn er það snerpa bankans sem öllu máli skiptir, að geta brugðist hratt við tilraunum til svika og annarri yfirvofandi ógn.

Í nóvember gekk Landsbankinn í samtökin Nordic Financial CERT sem eru samtök norrænna fjármálafyrirtækja sem er ætlað að efla netöryggi og verjast glæpastarfsemi á netinu. Þrír norrænir bankar stofnuðu Nordic Financial CERT í apríl 2017; Nordea í Svíþjóð, DnB í Noregi og Danske Bank í Danmörku. Síðan þá hefur fjöldi banka og tryggingafélaga bæst í hópinn, þar á meðal frá Finnlandi og í nóvember gekk Landsbankinn í samtökin, fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja. Fyrirtæki sem eru aðilar að samtökunum skiptast á viðeigandi upplýsingum um hvers kyns tilraunir til fjársvika á netinu og varnir gegn þeim.

Nánar er fjallað um netöryggismál í umfjöllun um samfélagsábyrgð í ársskýrslunni.


Nýjar gerðir hraðbanka og aukin notkun

Landsbankinn rekur sem fyrr víðfeðmasta hraðbankanetið á Íslandi. Í árslok 2017 rak bankinn 80 hraðbanka á 73 stöðum víða um land.

Landsbankinn hefur undanfarin ár fjölgað hraðbönkum af nýrri kynslóð en í þeim er bæði hægt að taka út og leggja inn reiðufé. Um áramót voru 17 slíkir hraðbankar í rekstri á níu stöðum. Á haustmánuðum 2017 tók bankinn í notkun gjaldeyrishraðbanka í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu. Gjaldeyrishraðbankarnir eru aðgengilegir á afgreiðslutíma útibúanna og hafa viðtökurnar verið góðar. Hægt er að taka út evrur, Bandaríkjadali, sterlingspund og danskar krónur.

Samhliða fjölgun innlagnarhraðbanka og nýjum gjaldeyrishraðbönkum hefur notkun hraðbanka aukist töluvert. Heildarvelta í sjálfsafgreiðslutækjum jókst um tæplega 5% á milli áranna 2016 og 2017. Hefðbundnar reiðufjárúttektir hafa dregist eilítið saman en önnur þjónusta, svo sem innlagnir á reiðfé, hefur verulega sótt í sig veðrið.

Betri bankaviðskipti í útibúum

Á árinu 2017 voru gerðar breytingar á útibúum bankans í Borgartúni og Austurstræti í Reykjavík. Það sem helst einkennir breytingar í útibúunum er að hraðbönkum, nettengdum tölvum og öðrum sjálfsafgreiðslulausnum er fjölgað verulega. Í tengslum við breytingarnar fær starfsfólk þjálfun í að taka á móti viðskiptavinum og bjóða þeim aðstoð eða kennslu við að nýta sér lausnirnar. Kostirnir eru ótvíræðir; viðskiptavinir spara sér tíma og fyrirhöfn, álag í útibúunum minnkar og bið eftir þjónustu styttist.

Reynslan af þessu verkefni hefur verið góð. Um það bil helmingur viðskiptavina sem áður sótti í útibú vegna einfaldari afgreiðslu, annast hana nú sjálfir í sjálfsafgreiðslu eða hafa virkjað möguleika til sjálfvirkni, t.d. með sjálfvirkri skuldfærslu.

Hlutverk útibúa hefur verið að breytast, frá því að sinna að stærstum hluta afgreiðslu á erindum sem viðskiptavinir geta nú sjálfir leyst í netbanka eða hraðbanka, yfir í að verða miðstöðvar fyrir fjármálaráðgjöf. Á árinu 2017 fengu um 7.200 viðskiptavinir Landsbankans svonefnda 360° fjármálaráðgjöf, sem er heildstæð ráðgjöf sem tekur á öllum hliðum fjármála. Nánar er fjallað um 360° ráðgjöf í kaflanum um starfsemi Einstaklingssviðs.

Útibú og afgreiðslur Landsbankans 2008-2017

Breytingar á útibúaneti

Í árslok 2014 rak Landsbankinn 32 útibú og afgreiðslur. Eftir sameiningu Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands árið 2015 fjölgaði útibúum og afgreiðslum bankans og eru þau nú 37. Landsbankinn rekur sem fyrr langvíðfeðmasta útibúanet íslenskra banka.

Í ársbyrjun 2017 var útibúinu í Þorlákshöfn breytt í afgreiðslu sem heyrir undir útibúið á Selfossi. Þessi breyting var gerð í hagræðingarskyni og hefur lítil sem engin áhrif á viðskiptavini bankans eða þá þjónustu sem er í boði.

Umfangsmiklar breytingar á persónuverndarlöggjöf

Í maí 2018 tekur gildi ný og umfangsmikil persónuverndarlöggjöf í Evrópu. Með nýju löggjöfinni eru réttindi einstaklinga efld til muna og lagðar auknar skyldur á fyrirtæki sem vinna með persónuupplýsingar. Landsbankinn hóf undirbúning við innleiðingu á löggjöfinni í ársbyrjun 2017. Á árinu var unnið að því að greina nýjar kröfur við vinnslu persónuupplýsinga og safna upplýsingum um alla vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað í bankanum. Þá er unnið að lausnum til að geta afgreitt beiðnir viðskiptavina sem snúa að afritun á gögnum þeirra og um að flytja gögn þeirra til þriðja aðila að ósk viðskiptavina.

Landsbankinn hefur skipaði sérstakan persónuverndarfulltrúa, fyrstur íslenskra fyrirtækja. Meginhlutverk persónuverndarfulltrúa er að stýra, vakta og meta frammistöðu Landsbankans á sviði persónuverndar, annast fræðslu og vera tengiliður vegna mála sem tengjast vinnslu á persónuupplýsingum.

Útibúanet Landsbankans

Artboard 1

Nánar um útibúanetið

Ný tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu, sem nefnist PSD2, mun valda miklum breytingum á fjármálamarkaði.

Ný tilskipun um greiðsluþjónustu 

Ný tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu, sem nefnist PSD2, mun valda miklum breytingum á fjármálamarkaði. Tilskipunin tekur gildi í áföngum á árunum 2018 og 2019. Landsbankinn gerir ráð fyrir að tilskipunin muni auka samkeppni og hækka þjónustustig í greiðsluþjónustu og tengdum þjónustuþáttum. Á árinu 2017 var unnið að því að undirbúa bankann fyrir gildistökuna og sú vinna heldur áfram. Bankinn lítur svo á að PSD2-tilskipunin muni gefa bankanum tækifæri til að þróa fjármálaþjónustu enn frekar og þannig bjóða viðskiptavinum sínum enn betri vörur og þjónustu. Eftir gildistökuna munu viðskiptavinir geta veitt leyfi til að fyrirtæki, t.d. svokölluð fjártæknifyrirtæki, fái aðgang að innlánsreikningum sínum, t.d. til að framkvæma greiðslur af þeim. Tilskipunin opnar auk þess markaðssvæði Evrópu, þannig að viðskiptavinir geta valið hvar þeir stunda sín bankaviðskipti, hérlendis eða í Evrópu. Þetta er mikil breyting, bæði fyrir banka og viðskiptavini. Það er ljóst að PSD2-tilskipunin mun auka samkeppni en staða Landsbankans á markaðnum er traust og bankinn er vel í stakk búinn til að takast á við nýtt landslag í greiðsluþjónustu.