Mannauður


Það er stefna Landsbankans að hjá bankanum starfi hæft, metnaðarfullt og ánægt starfsfólk. Á árinu 2017 var markvisst unnið að því að bæta fræðslustarfið enn frekar og skapa lærdómsmenningu sem leggur áherslu á að starfsfólk taki ábyrgð á eigin þekkingu og miðli henni til samstarfsmanna.

Fara neðar

Mannauðsstefna Landsbankans endurspeglar þá áherslu sem bankinn leggur á gott starfsumhverfi þar sem starfsánægja og öflug þekkingarmiðlun er í fyrirrúmi. Jöfn starfstækifæri og launajafnrétti eru Landsbankanum mikilvæg en bankinn hefur í tvígang hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC og vinnur nú að jafnlaunavottun.

Kynjahlutfall hjá Landsbankanum, nokkur dæmi

 
Karlar
 
Konur
Framkvæmdastjórn
57%
43%
Útibússtjórar
63%
37%
Forstöðumenn
73%
27%
Deildarstjórar
41%
59%
Sérfræðingar
48%
52%
Þjónustufulltrúar og gjaldkerar
8%
92%

Jafnréttismál

Í Landsbankanum er lögð áhersla á að tryggja launajafnrétti og jöfn starfstækifæri. Bankinn hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans verði aldrei minni en 40%. Landsbankinn var fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerki jafnlaunaúttektar PwC árið 2015 og svo aftur 2016. Á árinu 2017 samþykkti Alþingi lög um jafnlaunavottun sem tóku gildi 1. janúar 2018. Undirbúningur vottunarferlis stendur yfir og miðar sú vinna að því að Landsbankinn öðlist vottunina á árinu 2018.

Jafnréttisstefna Landsbankans og aðgerðaáætlun stefnunnar er til skoðunar og endurmats, meðal annars með hliðsjón af þeirri vitundarvakningu sem frásagnir #metoo hafa komið til leiðar.

Landsbankinn hefur unnið markvisst að jafnréttismálum í gegnum tíðina og birt eigin greiningar um laun kynjanna. Það er skýrt í starfsemi bankans að karlar og konur skuli hafa jafna möguleika til starfsframa, njóta sömu réttinda í starfi og að konum og körlum skuli greidd sömu laun fyrir jafn verðmæt störf. Þá líðast hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni í bankanum.


Kynjahlutfall - heild

Fyrirtækjamenning

Hjá Landsbankanum er markvisst unnið að því að styðja fyrirtækjamenningu þar sem viðskiptavinir eru í fyrirrúmi, samstarf er öflugt, framfarir stöðugar og allir starfsmenn taka ábyrgð á árangri. Öflugir og sterkir stjórnendur gegna lykilhlutverki í þessari framtíðarsýn, bæði sem virkir þátttakendur og sem fyrirmyndir.

Hluti af innleiðingu fyrirtækjamenningar er skilgreining á hlutverki stjórnenda. Stjórnendalíkan Landsbankans tilgreinir til hvers er ætlast af stjórnendum. Þeir þurfa að hafa persónulegan styrk, byggja öfluga liðsheild, taka ábyrgð á árangri sinna starfsmanna og stöðugt þarf að huga að stefnu og sýn Landsbankans til þess að tryggja áframhaldandi framfarir.

Unnið er eftir aðferðafræði árangursstjórnunar með skýra áherslu á markmiðasetningu starfseininga og starfsmanna, eftirfylgni markmiða og mat á því hvernig árangur eininga hefur áhrif á heildarmarkmið bankans. Til að fylgja eftir markmiðasetningu einstaklinga er notað frammistöðumatskerfi sem byggir á árlegu frammistöðusamtali milli starfsmanns og yfirmanns.

Breytingar voru gerðar á frammistöðusamtölum þannig að þeim fjölgar og hvert samtal er styttra, en þó með ólíka áherslupunkta í hvert sinn. Þungamiðja samtalsins verður þó áfram markmiðasetning þar sem línurnar eru lagðar fyrir næstu mánuði.

Stjórnendalíkan

Workplace tekið í notkun

Á árinu var innleiddur samfélagsvefurinn Workplace sem leysti af hólmi innra net bankans sem aðal upplýsingaveitu starfsmanna og gefur öllum starfsmönnum kost á að miðla þeim upplýsingum sem þurfa þykir, hvort sem er til allra starfsmanna eða skilgreindra hópa. Innleiðing gekk vel og hafa móttökur verið mjög jákvæðar. Mælingar sýna að virkni starfsmanna er mikil, um 75% starfsmanna fylgist með daglega og nærri allir starfsmenn a.m.k. einu sinni í viku.

Aukin starfsánægja: Vinnustaðagreining og bankapúlsinn

Á fyrsta fjórðungi hvers árs framkvæmir Landsbankinn ítarlega vinnustaðagreiningu og aðra umfangsminni á haustin. Sú síðarnefnda kallast bankapúlsinn en markmið bankapúlsins er að fylgja eftir þeim umbótamarkmiðum sem sett eru í kjölfar vinnustaðagreiningarinnar. Saman gefa þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um viðhorf starfsmanna til vinnustaðar síns og starfsánægju. Niðurstöður bankapúlsins, sem birtar voru í október 2017, sýna að starfsánægja innan bankans er mikil og hefur aukist.

Hlutfall starfsmanna sem fylgist daglega með á Workplace

75%
Heildaránægja*

*Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu hjá Landsbankanum.

Stolt*

*Ég er stolt(ur) af því að vinna hjá Landsbankanum.

Starfsandi*

*Mér finnst góður starfsandi í minni deild / mínu útibúi.

Framtíð starfa

Ljóst er að miklar áskoranir eru framundan í rekstri fjármálafyrirtækja og oft er vísað í fjórðu iðnbyltinguna í því samhengi. Þær miklu áskoranir og breytingar sem framundan eru kalla einnig á endurskoðun á högun mannauðsmála innan fjármálafyrirtækja. Störf framtíðarinnar munu ekki endilega krefjast sömu hæfni og getu og störf dagsins í dag gera og því þarf að huga að þróun mannauðsins til framtíðar og tryggja að Landsbankinn hafi ávallt rétt starfsfólk á réttum stað.

Þátttaka starfsfólks í símenntun árið 2017

Öflugt fræðslustarf

Það er stefna Landsbankans að hjá bankanum starfi hæft, metnaðarfullt og ánægt starfsfólk. Í fræðslustarfi bankans er lögð áhersla á að bjóða upp á starfsumhverfi sem hvetur starfsfólk til að huga markvisst að eigin starfsþróun og tryggja sér nauðsynlega þekkingu og hæfni til að ná árangri í starfi. Áhersla er lögð á að efla einstaklinginn og starfsfólk er hvatt til að sækja nám og fræðslu utan bankans eftir því sem við á.

Starfsfólki bankans býðst að sækja fjölbreytta fræðsludagskrá. Árið 2017 var boðið upp á 170 viðburði og þátttakendur voru um 3300. Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali ríflega 3 viðburði í fræðsludagskránni. Meirihluti starfsmanna bankans er virkur í símenntun þar sem 84% þeirra sóttu einhverja starfstengda símenntun árið 2017 á vegum bankans. Meðalfjöldi fræðslustunda á hvern starfsmann á árinu 2017 var 10,5 klst.

Fræðslustarf í tölum
3.300 Þátttakendur í fræðsluviðburðum hjá Landsbankanum á árinu 2017 voru 3.300 talsins.
170 Boðið var upp á 170 fræðsluviðburði hjá Landsbankanum á árinu 2017.
84% 84% starfsmanna bankans sótti sér einhverja starfstengda símenntun árið 2017.
10,5 Meðalfjöldi fræðslustunda á hvert stöðugildi á árinu var 10,5 klukkustundir.
3 Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali 3 viðburði í fræðsludagskránni.

Lærum og miðlum - lærdómsmenning

Ýmsir þættir í rekstarumhverfi Landsbankans kalla á breytta nálgun að starfsþróun og fræðslu. Má þar helst nefna aukna tæknivæðingu starfa og breytingar á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja. Aldrei hafa verið til jafn fjölbreyttar leiðir til að læra og miðla og nú.

Á árinu 2017 hefur því markvisst verið unnið að því hjá Landsbankanum að endurskoða fræðslustarfið og búa til lærdómsmenningu sem tekur mið af þeirri þróun sem er að eiga sér stað. Yfirskrift verkefnisins er „lærum og miðlum“ og það miðar að því að skapa starfsumhverfi sem hvetur fólk enn frekar til þess að taka ábyrgð á eigin þekkingu og miðla henni til samstarfsmanna.

Það sem einkennir slíkt umhverfi:

 • Skýrar þekkingarkröfur og námsferli.
 • Fjölbreyttar leiðir til að læra.
 • Snjallfræðsla.
 • Aðlaðandi framsetning fræðslu.
 • Hvatning og stuðningur til að læra.
 • Góð yfirsýn yfir þekkingu og nám.

Meginverkefni þessu tengd árið 2017 hafa verið:

 • Nýting á Workplace sem vettvangi til að læra og miðla.
 • Könnun á lærdómsmenningu bankans vorið 2017.
 • Samtal við stjórnendur um mikilvægi hvatningar til að læra og miðla.
 • Aukið framboð rafrænnar fræðslu.
 • Fjölbreyttari kennsluaðferðir á námskeiðum innan bankans.
 • Öflug kynning á fræðsluframboði innan sem utan bankans.
 • Undirbúningur innleiðingar á nýju rafrænu fræðsluumhverfi.