Samfélagsábyrgð


Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, að bankinn sé hreyfiafl og starfi í samræmi við ábyrga stjórnarhætti. Á árinu 2017 voru ábyrgar fjárfestingar í brennidepli og var Landsbankinn stofnaðili að nýjum íslenskum samtökum um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF.

Fara neðar
Samfélagsábyrgð er mikilvægur þáttur í starfsemi Landsbankans og áhersla er lögð á að hún sé samþætt stefnumörkun bankans í heild. Á árinu 2017 voru ábyrg fjármál áfram í brennidepli og var Landsbankinn stofnaðili að nýjum íslenskum samtökum um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF. Aukið samstarf var um öryggismál á netinu og áhersla lögð á varnir gegn peningaþvætti og fjármögnum hryðjuverka. Jafnréttismálin voru einnig ofarlega á baugi og góður árangur náðist í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna bílaflota bankans. 

Stefnan: Landsbankinn er traustur samherji í fjármálum

Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum við rekstur bankans. Efnahagslíf, samfélag og náttúra eru hluti af sama kerfinu og vöxtur þess getur ekki farið út fyrir þau endanlegu mörk sem náttúran setur. Sjálfbærni vistkerfa og öflugt atvinnulíf eru samþætt og samrýmanleg, ekki andstæður.

Við ætlum að vera hreyfiafl í samfélaginu með því að eiga frumkvæði að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samtök um þróun á atvinnuháttum og innviðum sem stuðla að aukinni sjálfbærni íslensk atvinnulífs og samfélags. Markmiðið er að tækifæri Íslands í þessu sambandi verði nýtt með sem bestum hætti fyrir land og þjóð til framtíðar. Saman sköpum við ný viðskiptatækifæri með áherslu á sjálfbærni.

Stefna Landsbankans er að vera til fyrirmyndar og vera traustur samherji í fjármálum. Við ætlum að vera í fremstu röð hvað varðar samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.

Samfélagsstefna Landsbankans var samþykkt árið 2011. Eftir mikla stefnumótunarvinnu í samfélagsábyrgð var ný stefna kynnt í mars 2015 og hefur hún verið í stöðugri þróun síðan. Undanfarin misseri hefur aukin áhersla verið lögð á vöruframboð bankans, útlán og fjárfestingar, en áður var mest litið til eigin reksturs (fasteigna, farartækja og mannauðsmála).

Samfélagsábyrgð: Umhverfi, samfélag, hagkerfi
Landsbankinn var eitt þeirra fyrirtækja sem stóðu að stofnun Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, árið 2011. Bankinn hefur verið aðili að UN Global Compact frá árinu 2006. UN Global Compact er samstarfsverkefni Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins til að fylgja eftir markmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið snýst um að hvetja fyrirtæki til að sýna samfélagsábyrgð í verki. Fyrirtæki sem staðfesta samkomulagið kjósa að fylgja viðmiðum Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að efla sjálfbærni í rekstri og framfylgja ábyrgum viðskiptaháttum.

Samfélagsskýrsla Landsbankans

Samfélagsskýrsla Landsbankans er rituð árlega samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) og verður birt á vef bankans eigi síðar en 21. mars 2018.

Ítarleg samfélags- og framvinduskýrsla

Samfélagsskýrsla Landsbankans er skrifuð á hverju ári samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI). Skýrslan inniheldur samanburðarhæfar upplýsingar frá ári til árs og áhersla er lögð á að leggja fram greinargóðar lýsingar á þeim aðferðum sem viðhafðar eru við innleiðingu og þróun samfélagsábyrgðar í Landsbankanum. Samfélagsskýrslan gegnir einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact.

Í Samfélagskýrslunni er fjallað um þau verkefni sem bankinn vinnur að sem tengjast samfélagsábyrgð og þar er með aðgengilegum hætti fjallað um samfélagsstefnu bankans og samfélagsvísa í rekstri bankans. Einnig er reynt að veita innsýn í það sem vel er gert og það sem betur má fara.

Áfram áhersla á ábyrg fjármál

Í Landsbankanum hefur markviss verið unnið að innleiðingu á stefnu í ábyrgum fjárfestingum undanfarin misseri, til að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir. Bankinn fékk aðild að United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) í byrjun árs 2013. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum UN PRI og tekur mið af reglum um áhættuvilja, stórar áhættuskuldbindingar og hámark heildaráhættu, rekstraráhættu, orðsporsáhættu, lausafjáráhættu og góða stjórnarhætti. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til þessara þátta í framvinduskýrslu.

Landsbankinn telur að samþætting umhverfismála, samfélagsmála og góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum hafi jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dragi úr rekstaráhættu. Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í sjálfbærni og samfélagsábyrgð er farin að hafa áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri er metin, sem og vaxtarmöguleika fyrirtækja.

Landsbankinn vill, með samræðum um samfélagsábyrgð við fyrirtæki, leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að hagur bankans og fjárfesta verði betur tryggður til framtíðar. Starfshættir Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum þar sem neikvæð skimun (útilokun) er undantekningartilvik.

Seljalandsfoss

Landsbankinn stofnaðili Samtaka um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF

Samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi voru stofnuð 13. nóvember 2017 og var Landsbankinn einn af 23 stofnaðilum. Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, er stjórnarformaður samtakanna.

Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Stofnaðilar samtakanna eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila með starfsemi á Íslandi og styðja tilgang samtakanna. Á meðal stofnaðila voru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki.

Samtökunum er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar fjárfestingar og munu því sem slík ekki taka afstöðu til álitamála er varðar umrædd málefni. Enskt heiti samtakanna er IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum).

Viðbótarviðmið við greiningu fjárfestinga

Hagfræðideild Landsbankans aflar upplýsinga á skipulagðan máta um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Um er að ræða staðlaðan einfaldan spurningalista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti. Með þessum spurningalista stígur Landsbankinn sín fyrstu skref við að afla upplýsinga um hvernig fyrirtæki sem skráð eru á markað haga þessum málum en svörin voru gerð aðgengileg fjárfestum á heimasíðu Hagfræðideildar í júní 2017. Að svo stöddu eru spurningarnar einungis til upplýsinga fyrir fjárfesta og tekur deildin ekki efnislega afstöðu til svaranna. Langtímastefnan er að tekið verði meira tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.


Landsbankinn leggur sig fram og hefur sett sér þá stefnu að vera til fyrirmyndar um að hafa öflugar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, m.a. með könnun á áreiðanleika viðskiptavina, eftirliti og reglulegri fræðslu til starfsmanna.

Dæmi um aðila er geta valdið orðsporsáhættu

 • Þeir sem grunaðir eru um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka.
 • Þeir sem koma að vopnaframleiðslu.
 • Þeir sem koma að framleiðslu og/eða dreifingu ólöglegra eiturefna.
 • Þeir sem bjóða upp á veðmál og/eða happdrætti sem ekki starfa samkvæmt íslenskum lögum.
 • Þeir sem framleiða, dreifa eða annast greiðsluþjónustu fyrir klám, mansal og/eða vændi.

Áhersla lögð á varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Landsbankinn hefur innleitt rafrænt eftirlitskerfi sem greinir óeðlilegar færslur og kannar hvort viðskipti tengjast aðilum á válistum. Um miðbik ársins 2017 hóf bankinn innleiðingu á rafrænu áhættumati á viðskiptasamböndum sem mun efla varnir bankans enn frekar en með vaxandi alþjóðlegum viðskiptum og frelsi í fjármagnsflæði milli ríkja hefur peningaþvætti orðið alþjóðlegt vandamál og er talið ein af undirstöðum alþjóðlegrar glæpastarfsemi, s.s. fíkniefnaverslunar, hryðjuverka, vopnasölu, mansals o.fl.

Þá hefur Landsbankinn fjölgað sérhæfðu starfsfólki á þessu ári sem annast eftirlit, reglulegar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu og samskipti við lögreglu. Þessar fjárfestingar bankans í innviðum draga úr hættu á fjársvikum og því að bankinn sé misnotaður til peningaþvættis en tilraunum til að hafa fé af viðskiptavinum bankans með sviksamlegum hætti hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum misserum.

Einnig verður áfram lögð áhersla á nauðsynlega fræðslu og ráðgjöf fyrir starfsmenn bankans.

Orðsporsáhætta

Í stefnu bankans um orðsporsáhættu áskilur Landsbankinn sér rétt til að hafna viðskiptum við aðila sem geta valdið hættu á tjóni á orðspori bankans. Þessir aðilar eru þau undantekningartilvik sem nefnd eru sem hluti af neikvæðri skimun.Aukið samstarf um netöryggi

Glæpa- og svikastarfsemi á netinu færðist í aukana á árinu og netglæpir urðu enn þróaðri. Landsbankinn leggur mjög mikla áhersla á netöryggi og hefur árangur Landsbankans í þeim efnum undanfarin ár vakið athygli út fyrir landsteinana. Í nóvember gekk Landsbankinn í samtökin Nordic Financial CERT, fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja. Nordic Financial CERT eru samtök norrænna fjármálafyrirtækja sem ætlað er að efla netöryggi og verjast glæpastarfsemi.

Aukin áhersla á persónuvernd

Í maí 2018 tekur gildi ný löggjöf um vernd persónuupplýsinga. Markmið hennar er að efla persónuvernd einstaklinga. Einstaklingum er gefið aukið vald um hvernig upplýsingar þeirra eru nýttar og auknar skyldur eru lagðar á fyrirtæki sem vinna með persónuupplýsingar.

Landsbankinn hefur á árinu 2017 lagt áherslu á nauðsynlegar umbætur til að standast kröfur samkvæmt nýju persónuverndarlöggjöfinni. M.a. var unnið að því að greina nýjar kröfur við vinnslu persónuupplýsinga og skrá upplýsingar um alla vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað í bankanum. Einnig var unnið að lausnum til að geta afgreitt beiðnir viðskiptavina sem snúa að afritun gagna þeirra og um að flytja gögn þeirra til þriðja aðila að ósk viðskiptavina.

Landsbankinn vill vera í fremstu röð í jafnréttismálum. Landsbankinn greiðir körlum og konum sömu laun fyrir sömu störf og tryggir að á meðal starfsmanna sé ekki til staðar óútskýrður kynbundinn launamunur.

Meginatriði jafnréttisstefnunnar

 • Í Landsbankanum eiga karlar og konur jafna möguleika til starfa og stjórnarsetu.
 • Landsbankinn stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna bankans og forðast að skilgreina störf sem karla- eða kvennastörf.
 • Landsbankinn greiðir körlum og konum sömu laun fyrir jafnverðmæt störf.
 • Landsbankinn leggur áherslu á að starfsmenn geti samræmt vinnu sína og einkalíf.
 • Landsbankinn gætir þess að bæði kynin hafi jöfn tækifæri til starfsþróunar, náms og fræðslu.
 • Í Landsbankanum líðst hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni.

Jafnréttismálin í brennidepli

Landsbankinn leggur áherslu á að ráða jafnt konur sem karla í stjórnunarstöður. Einelti, fordómar og kynbundin eða kynferðisleg áreitni líðast ekki í bankanum.

Árið 2017 samþykkti Alþingi lög um jafnlaunavottun sem tóku gildi 1. janúar 2018. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Undirbúningur vottunarferlis er hafinn innan bankans og miðar sú vinna að því að Landsbankinn öðlist vottun á árinu 2018. Jafnréttisstefna Landsbankans og aðgerðaáætlun stefnunnar er til skoðunar og endurmats, meðal annars með hliðsjón af þeirri vitundarvakningu sem #metoo frásagnirnar hafa valdið.

Árin 2015 og 2016 hlaut bankinn gullmerki jafnlaunaúttektar PwC en Landsbankinn var fyrstur banka á Íslandi til þess að hljóta gullmerkið. Árið 2011 skrifaði Landsbankinn undir Jafnréttissáttmálann (Women’s Empowerment Principles – Equality means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins en í sáttmálanum eru sjö viðmið sem hafa skal að leiðarljósi við að efla konur innan fyrirtækja og auka þátt þeirra í atvinnulífinu.

Árið 2010 setti bankinn sér það markmið að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans yrði aldrei minni en 40%. Í framkvæmdastjórn bankans eru nú þrjár konur og fjórir karlar.

Landsbankinn tók þátt í loftslagsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar ásamt 102 öðrum fyrirtækjum. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í tengslum við Parísarfundinn um loftslagsbreytingar og felst í því að fyrirtækin skuldbinda sig til að setja sér markmið og aðgerðaáætlun í samfélagsábyrgð til 10 ára.

Umhverfismálin mikilvæg

Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu á flokkun sorps í starfsstöðvum Landsbankans. Innleiðingu er lokið í höfuðstöðvum og í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu. Búið er að innleiða flokkun á vinnustöðvum á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi. Hlutfall flokkaðs úrgangs eykst sífellt og er markmiðið að Landsbankinn verði nær eingöngu með flokkaðan úrgang.

Landsbankinn vinnur jafnt og þétt að innleiðingu Led-lýsingar í bankanum en raforkunotkun bankans hefur minnkað til muna undanfarin ár. Lokið hefur verið við að setja upp Led-lýsingu í útibúunum í Grafarholti og Hafnarfirði, auk þess sem allt húsið í Borgartúni 33 er með Led-lýsingu. Í höfuðstöðvunum í Kvosinni hefur verið komið upp Led-lýsingu á yfir 1000 fermetra svæði.


Meginmarkmið bankans í umhverfismálum

 • Allar bifreiðar Landsbankans verði vistvænar.
 • Sorpflokkun verði á öllum vinnustöðvum Landsbankans
 • Landsbankinn takmarki rafmagnsnotkun eins og unnt er.
 • Umhverfisvottaðar vörur verði notaðar í rekstri eins og unnt er.
 • Innkaup á umhverfisvottuðum vörum

Dregið úr útblæstri

Í byrjun árs 2017 voru teknir í notkun fjórir vistvænir fólksbílar í rekstri Landsbankans sem keyptir höfðu verið í lok árs 2016. Bílarnir eru ætlaðir til afnota fyrir starfsfólk sem þarf að nota bíl frá bankanum vegna vinnuferða. Á árinu var fækkað um fjóra bensín- og díselbíla í bílaflota bankans. Hlutfall vistvænna bifreiða í Landsbankanum í lok árs 2017 var 36%. Með þessum aðgerðum hefur útblástur vegna bifreiða bankans minnkað um 35,4% á milli áranna 2016 og 2017.

Markmiðið er að allar bifreiðar Landsbankans verði umhverfisvænar árið 2025 og á þessum hraða er vonast til að bankinn nái markmiðinu fyrr. Áætlað er að skipta út fimm eldri bifreiðum í byrjun árs 2018 fyrir vistvæna bíla.


Útblástur vegna bifreiða bankans minnkaði um 35,4% milli áranna 2016 og 2017.

Samgöngusamningar

Með samgöngusamningum vill Landsbankinn fjölga valmöguleikum starfsmanna hvað varðar samgöngur svo þeir geti nýtt sér þann ferðamáta sem best hentar hverju sinni; notað vistvænan ferðamáta almennt en einnig haft aðgang að bíl þegar þess er þörf.

Í lok árs 2017 voru 446 starfsmenn með virka samgöngusamninga, eða 41% af heildarfjölda starfsmanna. Af þeim sem eru með virka samgöngusamninga eru 265 konur, eða 59,42%, og 181 karl sem er sambærilegt við hlutfall kynjanna í starfsliði bankans.

Í samgöngusamningi felst að starfsmenn skuldbinda sig til að nýta annan ferðamáta en einkabílinn vegna ferða til og frá vinnu í 60% tilvika. Bankinn endurgreiðir þeim útlagðan kostnað, allt að 90.000 krónum á ári eða 7.500 kr. mánaðarlega.


Hlutfall starfsmanna með samgöngusamning

41%