Ávarp formanns bankaráðs og bankastjóra


Helga Björk Eiríksdóttir var kjörin formaður bankaráðs Landsbankans í apríl 2016. Lilja Björk Einarsdóttir tók við starfi bankastjóra Landsbankans þann 15. mars 2017.

Fara neðar

Ávarp formanns bankaráðs Landsbankans

Landsbankinn naut vaxandi meðbyrs á árinu 2017. Góðar efnahagsaðstæður á Íslandi endurspegluðust í bættri afkomu viðskiptavina og sterkari stöðu bankans. Vanskil héldu áfram að minnka og útlánasafn bankans þróaðist með hagstæðum hætti. Launahækkanir, sterkt gengi krónunnar og aukin samkeppni um vinnuafl hafa á hinn bóginn sett fyrirtækjarekstri þrengri skorður en áður. Útlit er fyrir að árið 2018 verði krefjandi fyrir fyrirtæki í flestum greinum atvinnulífsins og er Landsbankinn þar ekki undanskilinn.

Rekstur í samræmi við áætlanir

Rekstur Landsbankans var í samræmi við áætlanir ársins 2017. Hagnaður bankans nam 19,8 milljörðum króna, samanborið við 16,6 milljarða króna árið 2016. Rekstrartekjur jukust um 4,8 milljarða króna eða um 9,9% og rekstrargjöld hækkuðu um 336 milljónir króna eða um 1,4%. Kostnaðarhlutfallið var 46,1% á árinu og lækkaði frá fyrra ári. Arðsemi eiginfjár eftir skatta var 8,2%, sem er undir langtímamarkmiði, og ljóst að bæta þarf grunnrekstur bankans enn frekar.

Landsbankinn fékk góðar viðtökur á erlendum skuldabréfamörkuðum á árinu 2017 og í júní fjármagnaði bankinn m.a. lokagreiðslu skuldar við gamla Landsbanka Íslands, nú LBI ehf., að fjárhæð 16,2 milljarðar króna með útgáfu erlendra skuldabréfa. Lánshæfiseinkunn bankans skiptir verulegu máli, ekki síst á erlendum fjármagnsmörkuðum, og því var ánægjulegt þegar matsfyrirtækið S&P Global Ratings hækkaði lánshæfiseinkunn Landsbankans í BBB+/A-2 með stöðugum horfum sl. haust.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs

Efnahagur Landsbankans er traustur. Eigið fé hans í árslok 2017 var 246 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið var 26,7%. Eiginfjárhlutfallið er hátt á alla mælikvarða þrátt fyrir að bankinn hafi frá árinu 2013 greitt meirihluta hagnaðar fyrra árs til hluthafa.

Skipting eignarhalds á Landsbankanum hf.

Nafn Eignarhlutur
Ríkissjóður Íslands 98,20%
Landsbankinn hf. 1,50%
Aðrir hluthafar* 0,30%
   
*Árið 2013 fengu um 1.400 starfsmenn og fyrrum starfsmenn afhenta hluti í Landsbankanum í samræmi við samning um uppgjör LBI hf. og íslenska ríkisins. Við samruna Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands eignuðust fyrrum stofnfjárhafar í sjóðunum hluti í bankanum.

Frá árinu 2013 hefur Landsbankinn greitt hluthöfum sínum alls um 107 milljarða króna í arð en arðgreiðslurnar renna nánast að öllu leyti í ríkissjóð.

Á árinu 2017 greiddi bankinn 24,8 milljarða króna í arð vegna afkomu á árinu 2016. Á tímabilinu 2013-2017 greiddi Landsbankinn hluthöfum sínum alls um 107 milljarða króna í arð en arðgreiðslurnar renna nánast að öllu leyti í ríkissjóð. Á aðalfundi bankans 21. mars nk. mun bankaráð leggja til að bankinn greiði 15,4 milljarða króna í arð vegna afkomu ársins 2017.

Árið 2016 ákvað bankaráð að nýta sér heimild aðalfundar til kaupa á eigin hlutum í bankanum og gátu kaupin að hámarki numið 480 milljón hlutum eða 2% af útgefnu hlutafé. Tilgangurinn var að lækka eigið fé bankans og gefa hluthöfum kost á að selja hluti sína í bankanum með gagnsæjum hætti en hömlur á framsali hlutanna féllu niður 1. september 2016. Endurkaupin fóru fram á þremur tímabilum og stóð hið síðasta frá 13.-24. febrúar 2017. Á þriðja endurkaupatímabili keypti Landsbankinn samtals 8.509.625 eigin hluti að kaupvirði 90.394.085 krónur. Landsbankinn keypti samtals 142.031.497 eigin hluti samkvæmt endurkaupaáætluninni eða sem nemur 0,6% af útgefnum hlutum í félaginu og nam kaupverð þeirra 1.481.500.289 krónum.

Lilja Björk Einarsdóttir var ráðin bankastjóri Landsbankans 23. janúar 2017 og tók hún til starfa 15. mars, eða viku fyrir aðalfund bankans. Lilja tók við af Hreiðari Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Fjármálasviðs Landsbankans, sem gegndi starfinu tímabundið eftir að Steinþór Pálsson lét af störfum 30. nóvember 2016.

Á aðalfundi bankans 22. mars 2017 voru Berglind Svavarsdóttir, Einar Þór Bjarnason, Hersir Sigurgeirsson, Jón Guðmann Pétursson og Magnús Pétursson endurkjörin í bankaráð Landsbankans. Sigríður Benediktsdóttir var kjörin í bankaráð í stað Danielle Pamelu Neben sem hafði setið í bankaráði frá aðalfundi árið 2013.

Á árinu lauk bankinn, í samvinnu við Reiknistofu bankanna, við innleiðingu á nýju innlána- og greiðslukerfi frá alþjóðlega upplýsingatæknifyrirtækinu Sopra Banking Software. Nýja kerfið leysir af hólmi allt að 40 ára gömul tölvukerfi og er bæði hagkvæmara og sveigjanlegra en eldri kerfi.

Endurnýjun kerfanna auðveldar bankanum að bregðast við nýjum þörfum viðskiptavina sinna og býr einnig í haginn fyrir áframhaldandi þróun stafrænnar þjónustu, en á árinu skerpti bankaráð áherslur sínar á því sviði. Landsbankinn er því með traustar og öruggar undirstöður sem munu nýtast vel til framtíðar.

Fjötur um fót í samkeppni

Sérstaða fjármálamarkaðarins umfram margan annan rekstur er að eftirlitið með starfseminni hefur á síðustu árum orðið æ umfangsmeira og flóknara og þar af leiðandi kostnaðarsamara. Fram hjá þessu verður ekki litið. Þá greiða bankar einir íslenskra fjármálafyrirtækja sérstakan skuldaskatt til ríkisins, sérstakan skatt á laun starfsmanna sinna ásamt því að greiða 6% viðbótar tekjuskatt á hagnað umfram 1 milljarð króna. Þessir skattar námu um 5,3 milljörðum króna árið 2017 og á síðustu tíu árum hefur bankinn greitt samanlagt um 30,5 milljarð króna í skatta af starfsemi sinni, umfram það sem öðrum er gert að greiða.

Ofangreind tilhögun skekkir samkeppnisstöðu íslenskra banka verulega gagnvart erlendum bönkum, íslenskum lífeyrissjóðum og fjártæknifyrirtækjum, sem eru í örri sókn þessi misserin. Nú þegar íslenskir bankar eru loks að verða samkeppnishæfari gagnvart erlendum bönkum, vegna bættrar lánshæfiseinkunnar íslenska ríkisins og betra aðgengis að erlendum fjármálamörkuðum, eru þeir engu að síðar að missa viðskipti við stöndug íslensk fyrirtæki yfir til erlendra banka. Það gefur augaleið að sú stefna stjórnvalda að leggja sérstaka skatta á íslenska banka, sem erlendir bankar þurfa ekki að greiða, er íslenskum bönkum fjötur um fót.

Nýtt og hagkvæmara húsnæði

Einn liður í að bregðast við vaxandi samkeppni og örum breytingum á bankaþjónustu er að sameina miðlæga starfsemi bankans í nýjum húsakynnum. Núverandi húsakostur Landsbankans í miðborg Reykjavíkur er bæði óhagkvæmur og hentar starfseminni illa. Bankaráð Landsbankans tók sl. vor ákvörðun um að byggja á lóð bankans við Austurhöfn. Þar mun bankinn reisa hús sem mun mæta þörfum nútíma fjármálafyrirtækis og auðvelda nauðsynlega samvinnu milli ólíkra deilda bankans. Bankinn auglýsti eftir samstarfsaðilum um hönnun hússins og fékk í janúar sl. afar áhugaverðar tillögur frá sex arkitektateymum og mun í febrúar ganga til samninga við eitt þessara teyma um endanlega hönnun hússins. Á meðan hönnun og framkvæmdir standa yfir munu starfsmenn bankans nýta tímann til að breyta verklagi og skipulagi þannig að hið nýja húsnæði muni strax skila hagræðingu og bættri þjónustu við viðskiptavini.

Landsbankinn hefur á að skipa öflugu starfsfólki sem er tilbúið að leggja sig fram til að bankinn geti veitt framúrskarandi þjónustu. Kannanir á árinu 2017 sýndu að ánægja með þjónustu bankans er mikil og fer vaxandi. Traust til bankans hefur sömuleiðis aukist. Þetta eru afar ánægjulegar niðurstöður og gott veganesti til framtíðar. Fyrir hönd bankaráðs Landsbankans þakka ég viðskiptavinum traustið og starfsfólki fyrir góð störf. Einnig vil ég þakka hluthöfum og eftirlitsaðilum góð samskipti á liðnu ári.

Arðgreiðslur Landsbankans hf. (m. kr.)


Ávarp bankastjóra Landsbankans

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Landsbankinn er leiðandi í bankaþjónustu á Íslandi og stefna bankans er að vera traustur samherji í fjármálum. Áhersla bankans á næsta ári verður á traustan rekstur og framþróun í stafrænni bankaþjónustu og rekstri. Bankinn vex á ábyrgan hátt í takt við samfélagið og reksturinn skilar raunhæfri ávöxtun á eigið fé og með góðri stýringu lausafjár hefur verið hægt að skila umtalsverðum arðgreiðslum til eigenda síðastliðin ár.

Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2017. Afkoma bankans var góð og í samræmi við væntingar. Markaðshlutdeild bankans hélt áfram að aukast, kannanir sýndu aukið traust til hans og meiri ánægju viðskiptavina með þjónustuna. Rekstur bankans er traustur og stöðugur og þrátt fyrir almennar kostnaðarhækkanir hefur kostnaður bankans haldist nánast sá sami í krónum talið á milli ára. Þjónustutekjur jukust á árinu vegna aukinna umsvifa í þjóðfélaginu og markvissrar markaðssóknar en aukningin var einkum vegna þjónustu við fyrirtæki og fagfjárfesta.

Fjárhagsleg staða Landsbankans er sterk. Um síðastliðin áramót nam eigið fé bankans um 246 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 26,7%. Rekstur bankans er stöðugur og svokallaðir einskiptisliðir skipta minna máli í uppgjörinu en oft áður.

Meira traust á erlendum fjármálamörkuðum

Bankinn nýtur sífellt meira trausts á erlendum fjármálamörkuðum, eins og vel heppnuð erlend skuldabréfaútgáfa bankans á árinu 2017 ber með sér. Kjörin sem bankanum buðust voru betri en áður og mikil umframeftirspurn fjárfesta gefur fyrirheit um að aðgangur bankans að erlendu lánsfjármagni sé greiður. Stærstur hluti af andvirði erlendrar skuldabréfaútgáfu á árinu 2017 var notaður til að fyrirframgreiða óhagkvæmari fjármögnun ásamt því að treysta lausafjárstöðu. Bankinn mun á næstu árum áfram leitast við að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan sinni, m.a. með útgáfu víkjandi skuldabréfa.

Meginhlutverk Landsbankans er að þjóna fjölbreyttu samfélagi og atvinnulífi. Bankinn aðlagar sig að aðstæðum hverju sinni og störf og skipulag bankans taka mið af þörfum viðskiptavina og hagsmunaaðila hverju sinni. Það er mikilvægt verkefni stjórnenda bankans að vera sífellt á tánum gagnvart tækifærum til hagræðingar og aukinnar skilvirkni í bankarekstri. Slíkt skilar sér í betri arðsemi til langs tíma.

Stöðugildi í árslok

*Mestu munaði um samruna Landsbankans og SP-KEF

Stærsta upplýsingatækniverkefni Landsbankans

Árið 2017 var viðburðaríkt í rekstri Landsbankans. Stærsti einstaki áfanginn var innleiðing á nýju innlána- og greiðslukerfi í samvinnu við Reiknistofu bankanna og Sopra Banking Software en Landsbankinn var fyrstur íslenskra banka til að taka kerfið í notkun. Löngu var orðið tímabært að endurnýja innlána- og greiðslukerfi bankans, enda leystu þau af hólmi mörg eldri kerfi Reiknistofunnar sem sum voru komin vel til ára sinna. Verkefnið var afar umfangsmikið og flókið, m.a. vegna þess að þetta var í fyrsta sinn sem skipt er um innlána- og greiðslukerfi í rauntíma. Yfirfærslan tókst í öllum meginatriðum mjög vel. Engu að síður urðu nokkrar truflanir á þjónustu bankans. Viðskiptavinir okkar sýndu truflununum mikinn skilning og þolinmæði og hið sama má segja um samstarfsaðila okkar. Kunnum við þeim hinar bestu þakkir fyrir.

Innleiðing á nýjum innlána- og greiðslukerfum var stærsta upplýsingatækniverkefni sem Landsbankinn hefur tekist á við og styrkir enn frekar öfluga innviði bankans á þessu sviði. Þróun bankaþjónustu snýst ekki síst um að hagnýta stafræna tækni og nýta þær upplýsingar sem bankinn býr yfir til að geta boðið viðskiptavinum sem besta þjónustu.

Meiri áhersla á stafrænar lausnir

Um mitt ár 2017 var stefnuáherslum bankans breytt og næstu þrjú ár verður aukinn þungi lagður í að bjóða upp á stafrænar lausnir sem einfalda viðskiptavinum bankans lífið. Enn meiri áhersla er nú lögð á að þjónusta bankans sé skilvirk og aðgengileg fyrir viðskiptavini. Starfsmenn eru hvattir til að sýna meira frumkvæði, hvort sem er gagnvart viðskiptavinum eða til þess að bæta þjónustu bankans í heild, og mikið er lagt upp úr að sú þjónusta sem bankinn veitir sé virðisaukandi fyrir viðskiptavini.

Nýjar reglur um fjármálafyrirtæki sem brátt taka gildi gera það að verkum að á næstu árum má búast við að samkeppni á sviði stafrænnar bankaþjónustu og greiðslumiðlunar muni enn aukast. Landsbankinn er vel í stakk búinn til að takast á við þessar breytingar, enda byggir hann á sterkari grunni en nokkru sinni fyrr.

Um leið vinnur bankinn áfram að því að sjálfvirknivæða sem flesta ferla sína. Verk sem áður kröfðust töluverðrar vinnu munu heyra sögunni til. Með því batnar þjónustan og kostnaður minnkar.

Ný löggjöf skapar tækifæri fyrir Landsbankann

Nýjar reglur um greiðslumiðlun, PSD2, snúast m.a. um að bankar munu veita óhindrað aðgengi að ákveðnum upplýsingum, gegn samþykki reikningseiganda. Með því skapast tækifæri fyrir fjártæknifyrirtæki til að eiga milligöngu um greiðslur beint af bankareikningum. Við í Landsbankanum lítum svo á að löggjöfin skapi ekki síður tækifæri fyrir bankann til að bjóða upp á enn fjölbreyttari þjónustu.

Ný reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd mun sömuleiðis hafa miklar breytingar í för með sér. Reglugerðin kveður á um að einstaklingar fái aukið vald yfir því hvernig fyrirtæki og félagasamtök nýta upplýsingar um þá. Persónuupplýsingar eru í senn viðkvæmar fyrir einstaklinga og verðmætar fyrir fyrirtæki. Landsbankinn hefur lagt mikla vinnu í að undirbúa bankann fyrir gildistöku reglugerðarinnar, enda skiptir miklu máli hvar upplýsingar um einstaklinga eru geymdar og að viðskiptavinir skilji í hvaða tilgangi gögn eru unnin. Landsbankinn leggur ávallt mikla áherslu á öryggismál, gagnsæi og gagnavernd.

Landsbankinn er vel undirbúinn fyrir þær breytingar sem framundan eru á bankakerfinu og mun áfram kappkosta að veita einstaklingum og fyrirtækjum um allt land fyrirmyndarþjónustu. Ég þakka viðskiptavinum traustið og starfsfólki Landsbankans fyrir ötult starf á undanförnu ári.