Stefna og stjórnarhættir


Árið 2017 setti bankinn sér nýjar stefnuáherslur og leggur nú meiri áherslu á framfarir í stafrænni þjónustu.

Fara neðar
Sólarlag

Áhersla á framfarir í stafrænni þjónustu

Undir lok árs 2017 kynnti bankinn nýjar stefnuáherslur til ársins 2020 og er megináhersla lögð á framfarir í stafrænni þjónustu við viðskiptavini. Nýju stefnuáherslurnar eru í fjórum liðum:

Aðgengi: Viðskiptavinir geta með einföldum hætti sinnt öllum helstu bankaviðskiptum sínum hvar og hvenær sem þeim hentar. Þeir hafa gott aðgengi að upplýsingum og góða yfirsýn yfir fjármálin.

Skilvirkni: Viðskiptavinir spara tíma og fyrirhöfn með lausnum bankans. Erindi þeirra eru afgreidd hratt og örugglega með þeirri þjónustuleið sem þeir kjósa.

Virðisaukandi: Viðskiptavinir fá persónulega þjónustu sem er sniðin að þeirra þörfum. Þeir upplifa að samband þeirra við bankann sé verðmætt og að viðskiptasagan skipti máli.

Frumkvæði: Viðskiptavinum er sýndur áhugi og á þá er hlustað. Þeir finna að starfsfólk bankans vinnur starf sitt af fagmennsku og sýnir frumkvæði.

  • Við setjum viðskiptavininn í forgang.
  • Við byggjum á öflugu samstarfi og stöðugum framförum.
  • Hjá okkur tekur hver og einn ábyrgð á að árangur náist.

Meginmarkmiðin fimm snúast um

  • Ánægju og tryggð viðskiptavina
  • Að arðsemi eigin fjár sé um 10%
  • Að kostnaðarhlutfall sé um 45%
  • Starfsánægju starfsfólks
  • Að áhættuvilji sé innan skilgreindra marka

Stöðugildi í árslok

Markmið Landsbankans til ársins 2020

Árið 2015 setti Landsbankinn sér stefnu til fimm ára og gerður var ítarlegur listi yfir þau verkefni sem skyldi lokið við fyrir 2020. Árið 2017 hafði ýmist verið lokið við flest verkefnin eða þau vel á veg komin. Um leið höfðu nýjar áskoranir bæst við s.s. ný löggjöf um persónuvernd og opið gagnaumhverfi og breytingar á stafrænni tækni. Því voru nýjar stefnuáherslur kynntar til sögunnar undir lok árs 2017. Nýjar áherslur Landsbankans styðja við stefnu bankans - Landsbankinn ætlar að vera til fyrirmyndar, vera traustur samherji í fjármálum og skara fram úr í þjónustu og samskiptum við viðskiptavini. Áfram er unnið að þeim meginmarkmiðum sem voru sett árið 2015 en bætt hefur verið við mælanlegum markmiðum um framfarir í stafrænni þjónustu.

Stafræn og persónuleg þjónusta

Landsbankinn mun leggja áherslu á að finna lausnir og veita þjónustu út frá þörfum viðskiptavinarins og í takt við kröfur og breytingar á fjármálamarkaði.

Öryggi og traustur grunnur

Landsbankinn leggur áherslu á öryggi í viðskiptum og að tryggja að vistun og notkun persónugagna sé með besta móti. Landsbankinn leggur áherslu á að vera leiðandi í upplýsingaöryggi á Íslandi.

Nútímavæðing útibúa og afgreiðslu heldur áfram og jafnframt verður gætt vel að því að viðhalda sterkri markaðsstöðu bankans og góðum tengslum við viðskiptavini um allt land.

Áfram verður unnið að hagræðingu í rekstri og að því að gera þjónustu skilvirkari þannig að bankinn geti boðið viðskiptavinum sínum samkeppnishæf kjör og um leið skilað eigendum ásættanlegri arðsemi.

Öflug fyrirtækjamenning

Til að hægt sé að ná þessum markmiðum bankans er grundvallaratriði að styðja við starfsfólkið, mannauð bankans. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að styrkja starfsmannahópinn og innleiða fyrirtækjamenningu sem byggir á frumkvæði, trausti og gagnsæi. Með aukinni nýtingu á stafrænni tækni og sjálfvirkni minnkar vægi einhæfra starfa sem mun skila sér í aukinni starfsánægju.

Nánar er fjallað um mannauðsstefnu í kaflanum Mannauður.

Togari

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Á hverju ári gerir Landsbankinn úttekt á því hvort viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti sé fylgt og hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í mars 2017 um endurnýjun á viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum fyrir tímabilið 2016-2017. Viðurkenningin byggir á úttekt Deloitte ehf. á stjórnarháttum bankans sem fram fór í janúar 2017. Úttektin tekur mið af leiðbeiningum um góða stjórnarhætti sem eru gefnar út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Viðurkenningin er fyrst og fremst veitt til þess að ýta undir umræður og aðgerðir sem efla góða stjórnarhætti.

Stjórnarháttayfirlýsing

Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og gerir grein fyrir þessum þætti í stjórnarháttayfirlýsingu bankans ár hvert. Þar koma einnig fram nánari upplýsingar um bankaráð og undirnefndir þess.

Lesa stjórnarháttayfirlýsinguna í heild
Fullnustueignir í árslok skiptust í eftirfarandi eignaflokka:
Íbúðir 26
Atvinnuhúsnæði 21
Lóðir fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði 49
Sumarhúsalóðir 264
Sumarhús 3
Aðrar fasteignir 7
Jarðir 7
Bátar 5
Bílar og tæki 20
Birgðir 1
   403

Sala eigna Landsbankans á árinu 2017

Í mars 2016 setti Landsbankinn nýja stefnu sem nær til sölu allra eigna í eigu bankans. Markmið stefnunnar er að vanda og treysta enn frekar innri stjórnarhætti bankans um sölu eigna og takmarka þá rekstrar- og orðsporsáhættu sem sala eigna getur falið í sér. Stefnunni er ætlað að stuðla að gagnsæi og trúverðugleika við sölu eigna og efla þannig traust til bankans. Stefnunni er jafnframt ætlað að hámarka endurheimtur krafna við sölu fullnustueigna.

Í stefnunni kemur fram að árlega skuli birta skýrslu á vefsíðu bankans þar sem veittar eru samandregnar upplýsingar um eignir sem eru til sölu, eignir sem seldar hafa verið á liðnum 12 mánuðum og samandregnar upplýsingar um frávik frá meginreglunni um opið söluferli á liðnum 12 mánuðum. Skýrslan er nú hluti af ársskýrslu bankans og fer hér á eftir.

Eignir til sölu í árslok 2017

Alls voru 403 fullnustueignir bankans til sölu 31. desember 2017. Bókfært verðmæti þeirra var um 3,4 ma.kr. Auk þess voru þrjár fasteignir í eigu Landsbankans sem voru áður notaðar undir starfsemi bankans til sölu 31. desember 2017, auk einnar bifreiðar.

Í árslok 2017 voru eignarhlutir í 12 óskráðum félögum í sölumeðferð. Eignarhlutirnir eru ýmist í eigu Landsbankans eða Hamla fyrirtækja ehf., dótturfélags bankans. Upplýsingar um eignarhlutina voru m.a. birtar á vef bankans.

Eignir sem voru seldar á árinu 2017

Á árinu 2017 seldi Landsbankinn 278 fullnustueignir, 8 fasteignir, 11 bifreiðar og eignarhluti í tveimur félögum. Heildarsöluverðmæti þessara eigna nam um 6,2 mö.kr


Eignirnar sem seldar voru á árinu 2017* Fjöldi Samtals söluverð
Íbúðir 62 1.935.443.000
Atvinnuhúsnæði 14 1.574.390.000
Lóðir fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði 82 1.273.945.000
Jarðir 9 424.885.000
Sumarhúsalóðir 30 44.130.000
Sumarhús 10 136.950.000
Bátar/Skip 3 10.400.000
Birgðir 1 7.005.495
Bílar og tæki 81 66.976.255
Annað 5 67.400.000
Eignarhlutir í félögu 2 684.520.115
Samtals 299 6.226.044.865

*Verðbréf og aðrir fjármálagerningar sem teknir hafa hafa verið til viðskipta á markaði eru seldir á markaði og telst slík sala fela í sér opið söluferli. Slík viðskipti eru undanskilin í töflunni hér að ofan.

Upplýsingar um frávik frá meginreglu um opið söluferli

Í stefnu bankans um sölu eigna kemur fram að víkja megi frá meginreglunni um opið söluferli ef talið er að slíkt ferli brjóti gegn lögvörðum hagsmunum bankans eða að viðskiptalegir annmarkar séu á því að viðhafa opið söluferli. Með viðskiptalegum annmörkum er t.d. átt við einkaleyfi eða samning viðkomandi fyrirtækis við birgja eða vörumerkjaeigendur, ákvæði í hluthafasamningi eða samþykktum, svo sem forkaupsréttarákvæði, sjónarmið annarra eigenda, kröfuhafa eða eigenda viðskiptaleyfa eða þegar verðmæti eignar er það lítið að það réttlæti ekki kostnað við opið söluferli.

Kveðið er á um að frávik frá meginreglunni um opið söluferli skuli vera rökstudd og skráð. Slík frávik eru jafnframt háð sérstöku samþykki bankaráðs.

Í þremur tilvikum var vikið frá meginreglunni um opið söluferli á árinu 2017 og voru frávikin frá opnu söluferli samþykkt af bankaráði. Samanlagt söluverðmæti þessara þriggja eigna var 94 milljónir króna.

Hrein afkoma ríkisins af Landsbankanum nemur 153,3 milljörðum króna

Við stofnun Landsbankans hf. haustið 2008 lagði íslenska ríkið bankanum til 122 milljarða króna. Þar með eignaðist ríkið 81,33% hlut í bankanum. Breyting varð á eignarhaldi Landsbankans 11. apríl 2013 þegar 18,67% hlutur, sem var í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf., rann til íslenska ríkisins og Landsbankans í samræmi við samkomulag frá desember 2009.

Frá stofnun Landsbankans til og með ársins 2017 hafa arðgreiðslur bankans til ríkisins numið um 107 milljörðum króna, eða um 87% af upphaflegu kaupverði. Þegar tekið hefur verið tillit til vaxtakostnaðar ríkisins, arðgreiðslna og upphaflegs kaupverðs, nemur kostnaður ríkisins vegna kaupa á eignarhlut sínum í bankanum 91,3 milljörðum króna en verðmæti hlutarins* nam um áramót um 244,6 milljörðum króna. Hrein afkoma ríkisins samkvæmt þessu er því um 153,3 milljarðar króna.

Ríkissjóður heldur auk þess á hlutum í Landsbankanum vegna eignarhalds ríkisins í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands en ekki er tekið tillit til þessara hlut í ofangreindri samantekt. Eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum var samtals 99,7% af útistandandi hlutum í árslok 2017.


Afkoma ríkisins af eignarhlut í Landsbankanum

Afkoma
Hreinn fjármagnskostnaður -91.649
Hlutdeild í eigin fé 244.600
Hrein afkoma ríkisins 153.343

* Miðað við bókfært eigið fé 31.12.2017
Allar tölur í milljónum króna